Innlent

Sjálfsvíg fátíð í fangelsum

Valtýr Sigurðsson, forstjóri Fangelsismálastofnunar, segir ekki hafa legið fyrir beiðni um innlögn á geðdeild hjá stofnuninni vegna þrítugrar konu sem svipti sig lífi í fangelsinu á mánudagsmorgun. Hann segir sjálfsvíg í íslenskum fangelsum mjög fátíð, mun færri en annars staðar. Ekki hafði verið framið sjálfvíg í íslensku fangelsi í sex ár þegar konan svipti sig lífi. Valtýr segir að konan hefði ekki vistast á geðdeild sem fangi en hún átti innan við mánuð eftir af afplánuninni. Í fangelsunum séu einstaklingar í langtímavistun sem virkilega þurfa á geðdeildarvistun að halda og hefðu fengið hana á undan konunni. Valtýr skrifaði bréf til heilbrigðisráðherra í sumar vegna ónægra úrræða fyrir vistun geðsjúkra fanga. Í DV í gær segir í viðtali við föður konunnar að honum sé spurn yfir aðgerðarleysi fangelsisyfirvalda sem lögðu of seint við hlustir í tilfelli dóttur hans. Faðirinn undrast einnig að konan hafi haft ól sem hún notaði til að svipta sig lífi. Valtýr segist skilja sorgarviðbrögð föðurins en segir jafnframt að tæki séu í hverjum einasta klefa sem hægt sé að nota til sjálfsvíga. Ef ætti að koma algjörlega í veg fyrir slíkt þyrfti að breyta miklu í fangelsum sem hann væri hræddur um að fangar og aðstandendur myndu ekki sætta sig við, meðal annars þyrfti sérstök föt. Í bréfinu til heilbrigðisráðherra segir Valtýr að komið hafi fyrir, þegar geðlæknar hafi sent eða vistað fanga á geðdeild, að þeim hafi annað hvort verið snúið við á tröppunum eða eftir nokkrar klukkustundir. Þeir séu sendir aftur í fangelsin sem er óviðunandi með öllu gagnvart sjúklingunum sjálfum, öðrum föngum og starfsfólki fangelsanna. "Geðsjúkir fangar þrífast illa innan um aðra fanga enda oftast óvinnufærir og hafa slæm áhrif á andrúmsloftið innan veggja fangelsanna," segir í bréfinu. Mat Fangelsismálastofnunar er að núverandi ástand sé óásættanlegt. Þá segir Valtýr að auka þurfi sálfræðiþjónustu á Litla-Hrauni um 50 prósent en nú er starfandi sálfræðingur í 80 prósenta starfi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×