Innlent

Ræddi Evrópumál við Halldór

Matti Vanhanen, forsætisráðherra Finnlands segist hafa reifað reynslu Finna af aðild sinni að Evrópusambandinu við Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra á hádegisverðarfundi þeirra í ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu í gær. Vanhanen er staddur hér í opinberri heimsókn en Halldór tekur á móti honum sem starfandi forsætisráðherra. Halldór sagði fund þeirra hafa verið góðan, þeir hafi rætt samskipti landanna, aukna verslun og viðskipti þeirra á milli, Evrópumál, Atlantshafsbandalagið og alþjóðamál. Vanhanen sagði reynslu Finna af Evrópusambandinu góða, sérstaklega eftir stækkunina sem hafi auðveldað mjög mikið innan sambandsins. Hann sagði einnig að tengsl Finna við Eystrasaltsríkin væru sífellt að aukast en lagði áherslu á mikilvægi norræns samstarfs. Vanhanen ræddi stöðuna í norrænu samstarfi þar sem þrjár Norðulandaþjóðanna eru í ESB og þrjár þeirra eru í NATO. Hann sagði þetta ekki hamla samskiptum landanna á nokkurn hátt og það væri ekki á döfinni að Finnar sæktu um aðild að Atlantshafsbandalaginu. "Við viljum þróa samstarf okkar við Atlantshafsbandalagið, sem hefur verið farsælt, en höfum ekki í hyggju að ganga í það." Aðspurður hvort hann teldi það nauðsynlegt fyrir Ísland og Noreg að ganga í ESB í náinni framtíð sagði Vanhanen að það þyrfti hvert ríki fyrir sig að ákveða sjálft. Hann skilur hins vegar að Íslendingar séu uggandi vegna hinnar sameiginlegu fiskveiðistefnu sambandsins. Þetta er fyrsta heimsókn Vanhanen til Íslands í forsætisráðherratíð sinni en hann hefur komið tvisvar áður hingað til lands. Opinberri dagskrá heimsóknarinnar lýkur í dag með ferð hans og utanríkisráðherra í Bláa lónið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×