Innlent

Kærir hótanir til lögreglu

Mikael Torfason, ritstjóri DV, hefur kært og beðið um nálgunarbann á margdæmdan ofbeldismann sem blaðið hefur fjallað um í vikunni. Mikael segir manninn hafa verið með stóran lögregluhund fyrir utan heimili sitt í fyrrakvöld og hringt í heimilissímann. "Hann hefur haft í beinum og óbeinum hótunum við starfsfólk blaðsins og vill að við hættum umfjöllun um hann. Þá hefur hann hringt í konuna mína og hótað afa og ömmu eins starfsmanns hjá mér," segir Mikael. Umfjöllun um manninn, sem sagður er vera handrukkari, hófst á mánudag og var hann sagður hafa barið Friðrik Þór Friðriksson, leikstjóra á Ölstofunni, þannig að hann nefbrotnaði. DV hefur einnig fjallað um sakaferil mannsins og mál gegn honum sem flutt var í vikunni í Héraðsdómi Reykjavíkur. "Hann er ákærður fyrir að berja mann á sjúkrabeði með stálröri en maðurinn var mjaðmargrindarbrotinn eftir bílslys," segir Mikael.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×