Innlent

Háð hreinu umhverfi

Ný skýrsla um mannlíf á norðurslóðum var kynnt á Nordica hóteli í gær. Samantekt skýrslunnar var eitt af forgangsmálum Íslands í formennsku Norðurskautsráðsins árin 2002 til 2004. Níels Einarsson, forstöðumaður Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar og annar verkefnisstjóra skýrslunnar, segir hana vera fyrstu og einu samantekt sinnar tegundar. Aðspurður segir hann Ísland helst eiga sameiginlegt með samfélögum norðurskautsins að vera háð hreinu umhverfi og auðlindanýtingarétti. Skýrsluna segir hann skrifaða þannig að hún sé aðgengileg almenningi, einnig sé hún fallega myndskreytt. Farið er yfir efnahagsmál, heilbrigðismál, jafnréttismál, menntun og fleira sem viðkemur búsetu á norðurslóðum. Fram kemur í skýrslunni að vandamál steðji að tungumálum sem fáir tala í Norður-Rússlandi og hjá frumbyggjum sums staðar í Kanada. Einnig er bent á gífurlega menningarlega fjölbreytni þar sem oft er dregin upp nokkuð einsleit mynd af norðurslóðum. Alls komu 140 manns að gerð skýrslunnar, þar af um 90 höfundar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×