Lífið

Með annað fólk á bakinu

"Ég er að gera stuttmynd eftir sjálfan mig sem heitir Með mann á bakinu," segir útvarpsmaðurinn og grínistinn Jón Gnarr, en í þessari mynd skrifar Jón handritið, leikstýrir myndinni og leikur jafnframt aðalhlutverkið. "Myndin er tileinkuð öllum sem hafa þuft að bera fólk á bakinu á sér á einn eða annan hátt," segir Jón og útskýrir: "Þetta er mjög skrýtið fyrirbæri í náttúrunni. Ef maður er góð manneskja sem langar til að hjálpa fólki og vera almennilegur þá er einhvern veginn eins og fólk skríði upp á bakið á manni og festist bara þar," segir Jón, sem hefur rannsakað viðfangsefnið. "Ég las til dæmis grein í blaðinu Lifandi vísindi í fyrra um sníkjudýr og í hegðun þeirra sá ég margt sem svipar til hegðunarmunsturs manna. Ég hef komist að því að í samskiptum fólks er það æði oft þannig að einn aðili heldur alltaf á hinum og fær engar þakkir fyrir það, frekar skammir ef eitthvað er." Tökum er nú lokið á myndinni Með mann á bakinu og eftirvinnsla stendur yfir. "Mér líst mjög vel á efnið sem við erum með í höndunum enda eru allir sem koma að myndinni búnir að standa sig mjög vel," segir Jón. "Við tókum myndina upp á Seyðisfirði en Jóhann G. Jóhannsson og Valdimar Örn Flygering leika báðir í myndinni og gera það frábærlega en Bergsteinn Björgúlfsson annast kvikmyndatöku," segir Jón, sem langar til að færa sig meira út í það að skrifa og leikstýra. "Ég hef verið að dunda mér við þetta og leikstýrði meðal annars frumsömdu útvarpsleikriti í Ríkisútvarpinu í vetur sem fjallaði um þrjá gamla menn á elliheimili. Svo skrifaði ég líka söngleik fyrir Verslunarskóla Íslands og það var einkar skemmtilegt." Með mann á bakinu er 20 mínútna löng en Jón hefur ekki ákveðið hvar myndin verður tekin til sýningar. "Ég fékk styrk úr Kvikmyndasjóði til að gera myndina og það gerði mér þetta mögulegt. Ætli ég reyni síðan ekki að selja hana í bíó eða sjónvarp en annars veit ég satt best að segja ekkert hvernig svona lagað gengur fyrir sig."





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.