Menning

Fæ ferskt loft í lungun

"Ég hjóla mjög mikið. Ég hjóla alltaf í vinnuna þó að ég eigi bíl. Ég bara kýs að hjóla og mér finnst það mjög þægilegt. Þetta er góð hreyfing og ég fæ ferskt loft í lungun. Ég finn mikinn mun á mér síðan ég byrjaði að hjóla og er kominn með mjög gott þol," segir Steinarr Logi Nesheim, söngvari hljómsveitarinnar Kung Fu. Steinarr fór alltaf reglulega í líkamsrækt en er hættur því núna þar sem vinnan og hjólreiðarnar eru alveg nóg til að halda líkamanum í toppformi. "Ég vinn við fiskilöndun. Þegar maður vinnur þannig vinnu þá þarf maður ekki að fara í líkamsrækt. Eftir vinnudaginn er ekkert eftir af orkunni til að fara í líkamsrækt og því hætti ég því. Vinnan sjálf er þvílík líkamsrækt og ég svitna mikið. Ég fæ góða vöðva og er frekar stæltur. Þetta er líkamsrækt sem ég fæ borgað fyrir," segir Steinarr og margir væru eflaust fegnir því að vera í þannig vinnu. "Ég reyni að borða reglulega en ég er svolítið fastur í skyndibitamenningunni hér á Íslandi. Ég er reyndar með prógramm áður en ég spila á tónleikum þar sem ég reyni að borða eitthvað létt og laggott eins og kjúklingasalat. Ef ég borða eitthvað feitt er ég hreinlega eins og akkeri á sviðinu," segir Steinarr en Kung Fu er í banastuði um þessar mundir. "Við erum að spila úti um allt og klára gott sumar eins og er. Lagið okkar Stjörnuhrap er búið að gera góða hluti og við höfum verið að fylgja því eftir. Við erum að taka upp nýtt lag núna en vinnutitillinn á því er Þú. Svo erum við að skoða plötu fyrir jólin en það verður allt að koma í ljós."





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.