Innlent

Bætur vegna barnsláts fyrir dómi

Deilt er um upphæð bóta vegna barnsláts sem varð á Landspítala háskólasjúkrahúsi í nóvember 2002. Er málið nú fyrir héraðsdómi og gert er ráð fyrir að það verði fyrst tekið fyrir í þessum mánuði, að sögn Sigríðar Rutar Júlíusdóttur lögmanns foreldra barnsins. Ríkislögmaður hefur samþykkt bótaábyrgð ríkisins fyrir hönd Landspítala háskólasjúkrahúss, sem er í raun viðurkenning á því að mistök hafi átt sér stað, að sögn lögmannsins. Upphaf þessa máls má rekja til þess er móðirin fór í legvatnsstungu á Landspítala háskólasjúkarhúsi, að því er komið hefur fram í greinargerð lögmannsins. Var þá eftir því tekið að blóð kom í sprautuna. Gaf það til kynna að stungið hefði verið á æð í fylgjunni. Eftir þetta var móðirin sett í sírita. Kvartaði hún ítrekað undan því að fóstrið hreyfði sig ekki. Eftir ítrekaðar athugasemdir þess efnis var læknir sóttur til þess að skoða konuna. Voru þá farin að sjást alvarleg merki á síritanum. Fljótlega var tekin ákvörðun um að taka barnið með bráðakeisaraskurði og var það gert að þremur stundarfjórðungum liðnum. Hafði konan þá verið í sírita með hléi í um það bil fjórar klukkustundir. Það var þann 8. nóvember sem barnið var tekið með keisaraskurði, en aðeins fjórum dögum síðar lést það. Foreldrarnir kærðu starfsfólk Landspítalans til Landlæknisembættisins. Þá lagði lögmaður þeirra beiðni til Lögreglustjórans í Reykjavík þess efnis að lögreglan rannsakaði lát barnsins, þar á meðal hvort brotið hefði verið gegn lögum um skyldu lækna til að tilkynna óvænt dauðsfall sjúklinga til lögreglu. Lögreglustjóri synjaði beiðninni. Lögmaðurinn skaut þá málinu til ríkissaksóknara sem úrskurðaði að löreglurannsókn skyldi fara fram. Ekki er vitað hvenær dómur verður kveðinn upp í þessu sérstæða máli.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×