Innlent

Konur með hærri laun en karlar

Konur eru með hærri heildarlaun en karlar í tveimur stéttarfélögum, Félagi íslenskra leikara og Félagi íslenskra fræða. Í Félagi íslenskra leikara er munurinn 7,1 prósent. Konurnar eru með 244.895 krónur á mánuði en karlarnir 227.456 krónur. Munurinn er hinsvegar minni í Félagi íslenskra fræða eða aðeins 1,1 prósent. Konurnar eru þar með 276.171 krónur í heildarlaun á mánuði og karlarnir 273.370 krónur. Þetta er niðurstaða í kjararannsóknum KOS. Hjá Félagi íslenskra leikara fengust þær upplýsingar að kynjamunurinn hefði komið verulega á óvart og væri sennilega aðeins tímabundinn. Almennt sé ríkjandi sú skoðun innan félagsins að konur hefðu borið skarðan hlut frá borði. Skýringarnar á þessum mun nú geti verið ýmsar, t.d. að miklu fleiri konur hefðu verið í stórum hlutverkum þetta árið og fengið þar af leiðandi hærri sýningalaun en karlarnir. Tekjur leikara verið skoðaðar nokkur ár aftur í tímann.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×