Viðskipti innlent

Mikil viðskipti með krónuna í dag

Krónan hækkaði um 2,73% í miklum viðskiptum í dag og stendur gengisvísitalan nú í 114,3 samkvæmt háffimmfréttum KB banka. Að sögn bankans má hér greina áhrif 1% vaxtahækkunar Seðlabanka sem boðuð var við útgáfu Peningamála í gær. Með þessari hækkun er nafngengi krónunnar – miðað við gengisvísitölu – komið á sama stig og það var síðla árs 1993. Á þessum ellefu árum hefur nafnlaun, samkvæmt launavísitölu, hækkað um 93% og verðlag, samkvæmt vísitölu neysluverðs, hækkað um 38%. Þessi staðreynd ætti að sýna í hnotskurn hversu fjarri öllum efnahagslegum veruleika núverandi nafngengi er eftir hækkanir dagsins, að sögn KB banka, en að vísu beri að hafa í huga að raungengi krónunnar var í algeru lágmarki í miðri kreppunni árið 1993 og framleiðni hefur vaxið verulega á síðustu árum. Bankinn segir samt sem áður mjög ólíklegt að núverandi raungengisstig geti haldist til lengdar.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×