Menning

Elskar japanskan mat

"Mér finnst alveg rosalega gaman að elda og það er eiginlega það skemmtilegasta sem ég geri," segir Melkorka Þuríður Huldudóttir, söngkona í hljómsveitinni Brúðarbandið. Melkorka skellti sér í vikufrí um daginn til Tókýó, höfuðborg Japans, með kærastanum. "Mér finnst japanskur matur algjört æði og alveg rosalega góður. En ég skildi samt ekkert í Japan og allir matseðlarnir voru á japönsku og því benti ég bara á eitthvað á matseðlinum og prófaði alls kyns mat. Einn daginn var ég að borða súpu og var næstum því búin að klára hana. Þá fann ég eitthvað skrýtið í botninum og það var frekar viðbjóðslegt. Ég komst nú aldrei að því hvað það var og kannski er það bara ágætt. Svo smakkaði ég meðal annars hráan smokkfisk í sushi. Hann er harður og viðbjóðslegur. Það var ekki nógu gott," segir Melkorka. "Það var líka svolítið spes í Japan að það voru skálar með plastmat í gluggunum á veitingastöðunum. Þar gat ég skoðað það sem var á matseðlinum. Þar voru til dæmis plastrækjur og annað plast-sushi sem var rosalega flott. Það skilja líka fáir ensku þannig að með þessu var mjög auðvelt að benda á það sem ég vildi," segir Melkorka sem eldar þó ekki mikið af japönskum mat. "Ég er búin að vera í skóla svo lengi þannig að ég er orðin vön því að vera fátæk. Þannig er ég orðin mjög góð í því að elda mat úr ekki neinu. Ég elda bara úr því sem er til og því hef ég ekki prófað að elda japanskan mat." Það er nóg að gera hjá Brúðarbandinu, nýbúnar að gefa út plötu og eru að skemmta á ýmsum stöðum. Samt náði Melkorka að skreppa til Japan og sér aldeilis ekki eftir því. "Tókýó er alveg rosalega "cool" og flott borg. Ég ferðaðist ekkert annað í Japan því Tókýó er alveg nóg. Það er alveg brjálæðisleg borg." lilja@frettabladid.is





Fleiri fréttir

Sjá meira


×