Sport

Powell hætti við að fara til Aþenu

Colin Powell, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hefur fyrirvaralaust hætt við ferð til Aþenu þar sem hann ætlaði að sitja lokahátíð Ólympíuleikanna. Andstæðingar stríðsreksturs virðast hafa skotið honum skelk í bringu. Powell átti að ferðast til Aþenu á morgun, sunnudag, en í morgun var ferðinni skyndilega aflýst. Talsmaður bandaríska utanríkisráðuneytisins segir að Powell hafi hætt við ferðina vegna anna við að sinna málefnum Íraks og Súdans. Fréttaskýrendur telja þó líklegast að Powell hafi viljað komast hjá því að mæta grískum stríðsandstæðingum sem söfnuðust saman í Aþenu gær til að mótmæla fyrirhugaðri heimsókn hans. Eitt þúsund manns gengu um götur borgarinnar og lögregla þurfti að beita táragasi til að dreifa mannfjöldanum sem hélt á risastórum borða þar sem á stóð: „Powell, morðingi, farðu heim“. Fleiri mótmælagöngur voru fyrirhugaðar þegar Powell kæmi til borgarinnar og í dag gengu menn enn um götur Aþenu með borða með and- amerískum áróðri. Forsvarsmenn andófsmannanna hrósa sigri og segja augljóst að Powell hafi hreinlega ekki þorað í þá, hvað svo sem aðstoðarmenn hans segja. Þessi uppákoma þykir nokkuð vandræðaleg fyrir grísk stjórnvöld en hingað til hefur rekstur Ólympíuleikanna og öryggismál í kringum þá gengið eins og í sögu. Í sárabætur hefur Powell lofað að koma í heimsókn til Grikklands strax í byrjun október.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×