Innlent

Áhyggjur 10. bekkinga í verkfalli

Rannveig Elba Magnúsdóttir nemandi í tíunda bekk Háteigsskóla hefur miklar áhyggjur af áhrifum af verkfalli kennara á nám hennar. "Allir sem eru með mér í bekk eru vonlitlir um að ná samræmdu prófunum," segir Rannveig. Meirihluti bekkjarfélaga hennar íhugi að fara í iðnnám vegna verkfallsins. Iðnskólinn í Reykjavík gæti orðið fyrir valinu: "Allir í bekknum ætluðu að fara saman í Menntaskólann í Hamrahlíð því skólinn er svo rétt hjá okkur. Það er enginn að vonast eftir því núna." Veróníka Gunnarsdóttir nemandi í tíunda bekk í Rimaskóla hyggur á framhaldsnám í Borgarholtsskóla. Hún telur það geta orðið henni erfiðara vegna verkfallsins því hún þurfi að leggja hart að sér vegna lesblindu. Veróníka telur verkfallið koma mjög illa niður á tíundu bekkingum. Hún hefur aðeins verið að læra. "Til dæmis að klára ritgerðir sem við áttum að gera. Annars eyðir maður tímanum með krökkunum úr skólanum en ég hef einnig verið að passa systkini mín." Árni Stefán Haldorsen nemandi í tíunda bekk í Hagaskóla hefur ekki áhyggjur af námsframvindu sinni í verkfalli kennara. "Ég ætla að sækja um í Menntaskólanum í Reykjavík. Ég hef ekkert sérstaklega velt fyrir mér hvort verkfallið hafi einhver áhrif á það," segir Árni. Nemendurnir standi örugglega allir í sömu sporum þegar verkfalli kennara ljúki. Árni segir svo virðast sem kennarar dragi verkfallið á langinn því sveitarfélögin geti ekki nætt kröfum þeirra. Það geti þó verið að orð sveitarfélaganna séu liður í samningatækni þeirra.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×