Innlent

Tveir fyrir dóm vegna bankaráns

Tuttugu og eins árs maður hefur játað fyrir dómi að hafa framið vopnað bankarán í útibúi Búnaðarbanka Íslands á Vesturgötu í Reykjavík 17. nóvember í fyrra. Aðalmeðferð málsins var í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær. Í ákæru ríkissaksóknara segir, að sá eldri, sem er 25 ára, hafi látið yngri manninum í té hníf og lambhúshettu, sem hann hafi hulið andlit sitt með er hann fór inn í bankann, og ógnaði tveimur gjaldkerum með hnífum. Neyddi hann annan gjaldkerann til að láta af hendi 430 þúsund krónur í peningaseðlum, sem maðurinn hafði síðan á brott með. Hlutdeild eldra mannsins er einnig sú, að hann ók hinum yngri að Búnaðarbankanum þann sama dag, beið hans í bifreiðinni skammt frá meðan hann fór inn í bankann. Eldri maðurinn ók hinum síðan af vettvangi með ránsfenginn. Hann játaði aksturinn fyrir dómi en neitaði sök að öðru leyti. Krefst ákæruvaldið þess að mennirnir verði dæmdir til refsingar samkvæmt 252. grein almennra hegningarlaga, sem kveður á um allt að 10 ára fangelsi og 16 ára hafi mjög mikil hætta verið samfara ráninu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×