Innlent

Nokkrir yfirheyrðir

Lögreglan hefur yfirheyrt nokkra karlmenn vegna barnsránsins í Kópavogi í fyrrakvöld. Hugsanlegt er að sá sem ginnti stúlkuna upp í bíl sinn hafi verið á rauðum fernra dyra Lexus. Lögreglunni í Kópavogi hafa borist fjölmargar vísbendingar sem unnið er eftir, en þeir sem telja sig geta veitt einhverjar upplýsingar um málið geta hringt í númerið 560-3041. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni hafa nokkrir menn verið kallaðir til yfirheyrslu eða viðtals, en allir höfðu þeir fjarvistasönnun og því ekki taldir tengjast því að níu ára stúlka var tæld upp í bíl hjá karlmanni á hringtorginu á mótum Álfhólsvegar og Bröttubrekku í Kópavogi í fyrradag. Maður taldi stúlkunni trú um að hann væri lögreglumaður og að slys hefði orðið í fjölskyldunni. Hann ók síðan með hana upp á Mosfellsheiði. Þar festi hann bílinn, sagði stúlkunni að fara út eftir því sem lögregla segir og ók síðan af stað. Hátt í tveimur klukkustundum síðar ók ökumaður fram á stúlkuna blauta og kalda við Skálafellsafleggjarann. Stúlkan hefur gefið lýsingu á manninum og samkvæmt henni er hann um tvítugt, sköllóttur með svört plastgleraugu og skeggtopp við neðri vörina. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni í Kópavogi segir stúlkan manninn hafa verið á rauðum fólksbíl. Hún mun hafa bent á mynd af rauðum fernra dyra Lexus með skotti og sagt að hann líktist mjög bíl mannsins. Eftir að stúlkan yfirgaf bílinn ók maðurinn til Reykjavíkur á ný.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×