Innlent

Leikskólakennarar skrifuðu undir

Samningamenn leikskólakennara og sveitarfélaga undirrituðu nýjan kjarasamning í gærkvöldi hjá Ríkissáttasemjara en leikskólakennarar voru búnir að vera með lausa samninga síðan í sumar. Samningurinn gildir til 30. september árið 2006, eða nokkuð skemur en samningar sem gerðir hafa verið að undanförnu. Mestar hækkanir verða hjá yngstu hópunum og deildarstjórum sem hækka um tuttugu prósent á samningstímanum. Þá hefur samningurinn verið einfaldaður þannig að föst yfirvinna fellur inn í dagvinnulaun. Samningurinn kostar sveitarfélögin rúman milljarð sem jafngildir þrettán prósenta hækkun launkostnaðar hjá sveitarfélögunum. Hann verður nú borinn undir atkvæði leikskólakennara og Launanefnd sveitarfélaga. Niðurstaða úr atkvæðagreiðslunni á að liggja fyrir upp úr miðjum janúar. Leikskólakennarar ákváðu í haust að fresta því að afla verkfallsheimildar fram yfir atkvæðagreiðslu grunnskólakennara um kjarasamning þeirra, en eftir að úrslit hennar varð ljós varð sú hreyfing á samningaviðræðum að ekki þótti enn ástæða til að afla heimildarinnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×