Erlent

Týndur og tröllum gefinn

Osama bin Laden er týndur. Þessu heldur Perves Musharraf, forseti Pakistans fram. Í viðtali við bandaríska dagblaðið Washington Post sagði hann leyniþjónustu Pakistans og Bandaríkjanna ekki hafa hugmynd um hvar leiðtoga al-Qaeda væri nú að finna. Sömu sögu er að segja af helstu samstarfsmönnum bin Ladens. Ein ástæðan er að sögn Musharrafs sú, að Bandaríkjamenn hafa fækkað í herliði sínu í Afganistan svo að þar er nú auðvelt að komast undan og felast. Musharraf segist hins vegar viss um að bin Laden sé á flótta og geti ekki stjórnað samtökum sínum. Musharraf er einn helsti bandamaður stjórnar Bush Bandaríkjaforseta í hryðjuverkastríðinu, en í viðtali við CNN gagnrýndi hann stríðið í Írak og sagði það mistök sem gert hefðu heiminn hættulegri. Hættan myndi þó enn aukast hyrfu hersveitir í skyndi frá Írak.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×