Innlent

Uppsagnirnar standa

Kennarar grunnskólans á Hólmavík sem sögðu upp störfum hafa ekki dregið uppsagnir sínar til baka. Þriðjungur kennara Lágafellsskóla í Mosfellsbæ hefur afturkallað uppsagnir sínar, sem og allir kennarar utan tveggja á Fáskrúðsfirði. Viktor Guðlaugsson, skólastjóri Varmárskóla í Mosfellsbæ, segir sex af tólf kennurum sem sögðu upp í Varmárskóla ætla að halda áfram störfum. Hann ræði persónulega við hvern og ræði við hina sex í dag. Ásdís Leifsdóttir, sveitarstjóri á Hólmavík, vonast til að kennurunum snúist hugur. Þeir hafi beðið niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar. "Ég á von á því að heyra frá þeim í vikunni," segir Ásdís. Laun kennaranna verði ekki hækkuð umfram það sem samist hafi um. "Við erum ekki öðruvísi sett en önnur sveitarfélög. Bara þessir samningar gera það að verkum að ég fæ ekki fjárhagsáætlun næsta árs til að stemma," segir Ásdís. Í skoðun sé hvar skorið verði niður. "Ég vil helst ekki leggja fram fjárhagsáætlun sem byggir á lántöku."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×