Innlent

Fimm bílar ultu í hálku

Fimm bílar ultu á Suðurlandi á tæpum sólarhring í gær og fyrradag. Lögreglan á Selfossi segir að gífurlega mikil hálka hafi verið í uppsveitum Árnessýslu. Síðdegis í gærdag valt bíll í Ölfusi við bæinn Kross. Fernt var í bílnum og þurfti aðstöð slökkviliðs til að losa fólkið úr honum. Fjórmenningarnir hlutu minniháttar meiðsl. Ökumaður bílsins þurfti að beygja út í vegakant til að koma í veg fyrir árekstur við bíl sem kom úr gagnstæðri átt og var að taka fram úr öðrum bíl. Lögreglan á Selfossi biður þá sem kunna að hafa upplýsingar um slysið að hafa samband í síma 480 1010. Lýst er eftir ökumanni nýlegrar rauðrar Nissan Patrol jeppabifreiðar sem var líklega valdur að slysinu. Í fyrrakvöld valt bíll við Ingólfshvol í Ölfusi og skömmu síðar varð umferðaróhapp undir Ingólfsfjalli. Í gærmorgun valt svo bíll á Suðurlandsvegi. Hann valt út í skurð sem var fullur af vatni. Allir í bílnum komust út úr honum og reyndust lítið meiddir. Á tólfta tímanum í gærmorgun valt svo bíll á Laugarvatnsvegi og stúlka sem var í bílnum var flutt á slysadeild.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×