Viðskipti innlent

Útgjöld vegna gjaldþrota aukast

Útgjöld ábyrgðasjóðs launa vegna gjaldþrota fyrirtækja hafa aukist verulega undanfarin þrjú ár. Til að bregðast við þessu þarf sjóðurinn stórauknar fjárheimildir frá ríkissjóði. Í frumvarpi fjármálaráðherra til fjáraukalaga fyrir árið í ár er farið fram á þrjú hundruð milljóna króna viðbótarheimild fyrir Ábyrgðarsjóð launa þar sem greiðslur úr sjóðnum eru umtalsvert hærri en gert var ráð fyrir í fjárlögum. Fjárlög gerðu ráð fyrir að útgjöld yrðu 527 milljónir króna þannig að um er að ræða 44 prósenta aukningu. Nú er gert ráð fyrir að heildargreiðslur úr sjóðnum muni nema allt að 850 milljónum. Ábyrgðasjóðurinn tryggir í raun hag launþega þegar bú gjaldþrota vinnuveitenda hrökkva ekki upp í viðurkenndar forgangskröfur. Á árunum 1993-2001 voru heildargreiðslur aldrei hærri en 360 milljónir króna en árið 2002 tóku greiðslur úr sjóðnum kipp og meira en tvöfölduðust. Það hefur svo ekki gengið til baka. Stjórn sjóðsins er að sögn aðstoðarmanns félagsmálaráðherra að láta vinna sjálfsstæða úttekt á því hvers vegna útgjöldin hafa aukist svo, og segir hann menn að sjálfsögðu hafa af þessu miklar áhyggjur. Og hvaða fyrirtæki falla helst fyrir gjaldþrotsdjöflinum? Ja, ef við tökum mið af síðasta ári þá voru langhæstu greiðslurnar vegna þrotabúa í sérhæfðri þjónustu, útgáfustarfsemi og í byggingariðnaði. Fyrirtæki í sérhæfðri þjónustu eru að stærstum hluta tölvu- og upplýsingatæknifyrirtæki.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×