Viðskipti innlent

Kaup fyrir 29 milljarða króna

SÍF er að ljúka kaupum á franska matvælafyrirtækinu Labeyrie Group fyrir 29 milljarða króna. Þetta eru ein stærstu fyrirtækjakaup íslenskrar viðskiptasögu. Þá hefur SÍF selt dóttturfyrirtæki sitt í Bandaríkjunum og hlut sinn í SH.  Labeyrie Group framleiðir og dreifir kældum matvælum fyrir smásölu. Það starfrækir sex verksmiðjur í Frakklandi, á Spáni og í Skotlandi. Helstu framleiðsluvörur eru reyktur lax, andalifur, rússneskar hveitipönnukökur og smurréttir. Tvö þúsund og fjögur hundruð manns starfa hjá fyrirtækinu en með kaupunum verður til samstæða á sviði matvælaframleiðslu sem undanfarna tólf mánuði hefur velt um 88 milljörðum og skilað fimm milljarða hagnaði. Það mun hafa tæplega fjögur þúsund starfsmenn í ellefu löndum. Jakob Sigurðsson, forstjóri SÍF, sagði í samtali við fréttastofu í dag að í þessu fælist meiriháttar stefnubreyting hjá fyrirtækinu. Nú væri verið að leggja meiri áherslu á fullvinnslu á kældum matvörum og fyrirtækið væri að færa sig inná vörumerkjamarkaðinn í Frakklandi. Auk þess einbeitir það sér að Evrópu en framleiðslu í Bandaríkjunum verður hætt. Þá verður hlutur SÍF í Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna seldur. Jakob segir að með kaupunum fái SÍF öflugan hóp stjórnenda sem munu reka starfsemi fyrirtækisins í Frakklandi. Kaupin eru með fyrirvara um samþykki samkeppnisyfirvalda í Frakklandi, auk þess sem samráð verður haft við frönsk stéttarfélög áður en gengið verður endanlega frá kaupunum.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×