Viðskipti innlent

Sparisjóðirnir fjármagna mest

Flestar uppgreiðslur á lánum Íbúðalánasjóðs koma frá sparisjóðunum, eða 32,5 prósent allra uppgreiðslna lána. Þetta kemur fram í svari Íbúðalánasjóðs við fyrirspurn sem Jóhanna Sigurðardóttir, þingkona Samfylkingarinnar, lagði fram á Alþingi sjötta þessa mánaðar. Næstflestar uppgreiðslur koma frá KB banka, eða 29,5 prósent, og svo fylgja Landsbankinn og Íslandsbanki með 19,5 og 18,5 prósent. Tryggvi Þór Herbertsson, forstöðumaður Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, taldi óvarlegt að ætla að gefa sér eitthvað um mögulega þróun á bankamarkaði út frá tölum Íbúðalánasjóðs um uppgreiðslur. "Þessar tölur koma mér spánskt fyrir sjónir og þarf að skoða eitthvað betur áður en hægt verður að draga af þeim einhverjar ályktanir," sagði hann, en hingað til hefur verið talið að KB banki ætti langstærsta hlutdeild í endurfjármögnun íbúðalána. Íbúðalánasjóður segist í svarinu ekki hafa forsendur til að segja til um hugsanleg áhrif aukinnar samkeppni á hlutdeild sjóðsins í nýjum lánum, en hugsanlega megi greina þróunina þegar frekari upplýsingar liggi fyrir hjá öðrum opinberum aðilum, svo sem Fasteignamati ríkisins og Seðlabankanum.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×