Innlent

Spenntu upp spilakassa

Nokkuð hefur verið um innbrot á Akureyri að undanförnu. Í fyrrinótt var brotist inn í tvö fyrirtæki í bænum, Bónusvideo við Geislagötu og tölvufyrirtækið Skrín við Furuvelli. Í Bónusvideo voru tveir spilakassar spenntir upp og úr þeim stolið fimmtíu þúsund krónum. Þá var reynt að spenna upp peningakassann án árangurs en kassinn var skemmdur. Litlu var stolið í tölvufyrirtækinu. Aðfaranótt föstudagsins fyrir viku var brotist inn í Bifreiðastillingu Jóseps við Draupnisgötu. Þaðan var stolið fartölvu og bilanagreiningartæki fyrir mótora sem er mjög verðmætt og ekki á allra færi að nota. Einnig var brotist inn í Gistiheimilið Stórholti síðustu nótt októbermánaðar. Litlu var stolið en farið var um allt hús og illa gengið um. Enginn hefur verið handtekinn vegna innbrotanna en málin eru í rannsókn lögreglunnar á Akureyri. Þeir sem geta veitt einhverjar upplýsingar um innbrotin eru beðnir um að láta lögregluna vita.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×