Innlent

Játar að hafa banað konunni

Eiginmaður konunnar sem fannst látin á heimili sínu í Hamraborg í nótt hefur játað að hafa orðið henni að bana. Maðurinn, sem er tæplega þrítugur að aldri, hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald til 15. desember. Það var klukkan rúmlega þrjú í nótt sem lögreglu barst vitneskja um að ekki væri allt með felldu á heimili hjónanna í Hamraborg í Kópavogi. Það var með þeim hætti að maðurinn hringdi í vinafólk og lét vita en það hringdi svo í lögreglu. Þegar lögregla kom að var konan látin. Eiginmaðurinn var handtekinn á vettvangi. Hjónin áttu tvö börn, eins og fjögurra ára. Voru þau bæði sofandi meðan voðaverkið átti sér stað. Börnin dvelja nú hjá aðstandendum. Maðurinn játaði við yfirheyrslur í dag að hafa orðið konunni að bana. Svo virðist sem þrengt hafi verið að öndunarvegi konunnar og það leitt til köfnunar. Læknisfræðilegar niðurstöður um lát konunnar liggja þó ekki fyrir og því ekki hægt að fullyrða um dánarorsök á þessari stundu. Rannsókn málsins er ekki lokið en maðurinn virðist hafa verið allsgáður þegar hann framdi voðaverkið og er talið að afbrýðissemi hafi komið við sögu. Nágrannar segja hjónin hafa verið til fyrirmyndar og þau hafa aldrei komið við sögu lögreglu áður. Maðurinn var í dag úrskurðaður í gæsluvarðhald til 15. desember.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×