Innlent

Hálfur milljarður í kostnað

Umferðartafir í Reykjavík kosta sendibíla í borginni 525 milljónir á ári hverju, samkvæmt útreikningum Kristins Vilbergssonar, framkvæmdastjóra Dreifingarmiðstöðvarinnar og Vörubíls. Kristinn gerir ráð fyrir að um 5 prósent af heildaraksturstíma sendibíla fari í umferðartafir, eða um 275 klukkustundir í mánuði. Hann segir um 1.500 sendibíla í borginni og áætlar 1.850 króna kostnað á tímann. Kristinn var annar frummælenda á opnum fundi sem Vörður, fulltrúaráð Sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík og borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins héldu í hádeginu í gær um umferðarmál í höfuðborginni. Fundurinn var sá fyrsti í fundaröð sem kölluð er "Framtíð Reykjavíkur". Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn, átaldi sérstaklega þá ákvörðun meirihlutans í Reykjavík að ráðast ekki í gerð mislægra gatnamóta á mótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar. Hann segir lausnina sem ráðast á í, með fjölgun akreina og fjögurra fasa umferðarljósum, mun síðri enda dragi hún ekki nándar nærri jafn mikið úr slysum og töfum. "Ef fólk kýs að nota einkabíla tel ég það skyldu borgarinnar að sjá til þess að umferð gangi eins greitt og örugglega fyrir sig og kostur er," sagði hann



Fleiri fréttir

Sjá meira


×