Vegið að réttarkerfinu
Ráðherra hefur í tvígang hunsað umsögn Hæstaréttar við skipan hæstaréttardómara. Eiríkur Tómasson telur vegið að réttarkerfinu og vill að reglum um skipan dómara verði breytt. Þegar Ólafur Börkur Þorvaldsson var skipaður var Eiríkur í hópi þeirra umsækjenda sem dómurinn taldi heppilegasta. Eiríkur segir að skipun Jóns Steinars komi ekki á óvart, en sé gagnrýnisverð. Ráðherra skipi nú aftur í embættið upp á sitt einsdæmi. Sú lína hafi því verið lögð að ekki sé lengur hægt að tala um sjálfstæða og óháða dómstóla, sem er jú forsenda réttarríkisins. Eiríkur segir að ef svo fram haldi sem horfi verði skipað í Hæstarétt á pólitískum forsendum, jafnvel með vísan til ættartengsla, og þá sé ekki hægt að segja að Íslendingar búi við réttarríki. Þess vegna hljóti viðbrögð allra ábyrgra stjórnmálamanna við þessu að vera þau að reglum um skipan hæstaréttardómara verði breytt. Í aðdraganda skipunar dómara að þessu sinni heyrðust þær raddir að óeðlilegt væri að Hæstiréttur komi nálægt því að velja dómara, þar eð það opni fyrir að þeir velji sér vini og skoðanabræður. Því vísar Eiríkur alfarið á bug. Hann segir það líka athyglisvert að einn dómari skeri sig úr, það er Ólafur Börkur Þorvaldsson, því hann vilji að pólitískur ráðaherra ráði þessu algerlega upp á sitt einsdæmi. Það þekkist hvergi í lýðræðisríkjum segir Eiríkur.