Innlent

Vilja ekki missa veginn

"Bæjarstjórn Austur-Héraðs mótmælir hugmyndum um lengingu þjóðvegar eitt þannig að hann liggi með fjörðum í stað Breiðdals og Skriðdals," segir í bókun bæjarstjórnar frá því í gær. "Bæjarstjórn skorar á þingmenn og samgönguyfirvöld að standa gegn slíkum hugmyndum, enda eru þær í andstöðu við þá stefnu sem viðhöfð hefur verið að þjóðvegur 1 sé ávallt stysta hringleið um landið. Slík breyting minnkar ekki þörf fyrir varanlega vegagerð og breiðari brýr í Skriðdal. Öryggi vegfaranda á þeirri leið verður ekki bætt með því að færa til númer þjóðvega, því staðreyndin er sú að allur meginþungi umferðarinnar velur sér stystu leið milli áfangastaða, eins og kom í ljós þegar vegur yfir Öxi var lagfærður." Bæjarstjórn Austur-Héraðs samþykkti að koma sem fyrst á fundi með sveitarstjórn Austurbyggðar, en hún hafði áður ályktað um færslu þjóðvegar eitt. Á fundinum á að leita nánari skýringa og upplýsinga um afstöðu sveitarstjórnar Austurbyggðar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×