Innlent

Sjö tugir funda án árangurs

Fjölmiðlaumræða hefur haft neikvæð áhrif á kjaraviðræður kennara og sveitarfélaganna. Birgir Björn Sigurjónsson, formaður launanefndar sveitarfélaganna, hefur merkt það á viðræðunum við kennara. Deilendur hafi gert samkomulag við ríkissáttasemjara um að ræða stöðu mála ekki opinberlega. Hvað ber í milli, hvar strandar og um hvað verði ekki gefið upp. Kjarasamningar kennara hafa verið lausir frá því í apríl. Samningsnefndirnar hafa fundað 60 til 70 sinnum hjá ríkissáttasemjara, formlega og óformlega. Ásmundur Stefánsson ríkissáttasemjari segir að þrátt fyrir stíf fundarhöld hafi staða umræðnanna ekki breyst. "Í hreinskilni sagt er engu við fundi þeirra að bæta og engar fréttir að færa," segir Ásmundur. "Það er erfitt að segja hvort viðræðurnar þokist í samkomulagsátt. Það ræðst að því hvernig framvindan verður." Ásmundur segir engin tilboð hafa gengið milli deilenda. Í dag er síðasti skóladagur grunnskólanna fyrir boðað verkfall. Náist ekki samningar fyrir mánudag fara um 4.400 kennarar í verkfall. Það snertir heimili rúmlega 43 þúsund skólabarna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×