Innlent

Var á milli heims og helju

Tæplega fertugur maður var um tíma á milli heims og helju á slysadeild Landspítalans eftir að hann var stunginn á hol í heimahúsi í miðborginni í nótt. Fólk sem átti leið um Laugaveginn um klukkan tvö í nótt fann manninn liggjandi á götunni, nær meðvitundarlausan, með svo mikinn og djúpan skurð á kviði að hluti innyfla lá úti. Fólkið kallaði þegar á sjúkrabíl og lögreglu og var maðurinn þá orðinn svo máttfarinn af blóðmissi að hann gat engar upplýsingar gefið og ekki einu sinni sagt til nafns. Maðurinn var þegar fluttur á slysadeidina þar sem hann gekkst strax undir aðgerð upp á líf eða dauða sem tókst vel og er hann ekki lengur í lífshættu. Skömmu síðar tókst lögreglumönnum að rekja blóðslóðina að íbúðarhúsi þar sem árásarmaðurinn var. Þar voru blóðug ummerki verknaðarins og var maðurinn þegar handtekinn. Lögregla telur að hinum stungna hefði að líkindum blætt út, hefði hann ekki komist út á götuna þar sem hann fannst. Málsatvik liggja ekki fyrir en yfirheyrslur eru að hefjast yfir árásarmanninum. Þó liggur fyrir að árásin tengist hvorki handrukkun eða fíkniefnum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×