Innlent

Enn er langt í land

Samninganefndir kennara og sveitarfélaga sátu á fundi síðdegis í gær og eru deilendur sammála um að örlítið hafi þokast í viðræðunum. Ekki er þó útlit fyrir að verkfallið leysist á næstunni. Nýr fundur verður haldinn klukkan eitt í dag. Að sögn Eiríks Jónssonar, formanns KÍ, náðist á fundinum í gær samstaða um ákveðin atriði sem snerta vinnutíma kennara. Þessir þættir eru þó háðir því að viðræðunefndirnar verði jafnframt sammála um aðra liði samningsins. Ef það bregst þá er öll vinna síðustu daga til einskis. Þótt fyrstu skrefin í átt að nýjum kjarasamningi hafi þannig á vissan hátt verið tekin þá varar Eiríkur við of mikilli bjartsýni. "Mér fannst hljóðið í samfélaginu farið að verða fullbjartsýnt. Ekki það að ég sé á móti bjartsýni en ég vil að fólk fái raunsanna mynd af því sem er að gerast og það er ennþá langt í land," segir Eiríkur sem telur ólíklegt að lausn finnist á deilunni alveg á næstunni. Sest verður að samningaborðinu á nýjan leik um hádegisleytið í dag og útilokaði Eiríkur ekki að ljón gætu þá verið á veginum. "Við erum alltaf að fást við eitthvað sem getur sprengt allt í loft upp"



Fleiri fréttir

Sjá meira


×