Viðskipti innlent

Vísitala framleiðsluverðs hækkar

Vísitala framleiðsluverðs er 100 stig á öðrum ársfjórðungi og hækkar um 1,9% á milli fjórðunga að því er greiningardeild Landsbankans greinir frá. Verðvísitala sjávarafurða hækkar um 1,1% á milli fjórðunga og önnur iðnaðarframleiðsla hækkar um 2,5%. Hækkanir á verðvísitölu framleiðslu eru aðallega tilkomnar vegna veikingar krónunnar en hún var 2,2% veikari á öðrum ársfjórðungi heldur en á þeim fyrsta. Þar af leiðandi er greinilegt að verð sjávarafurða hefur lækkað á erlendum mörkuðum á öðrum ársfjórðungi samkvæmt greiningardeildinni, en verð annarrar iðnaðarframleiðslu hefur hækkað lítillega. Þetta er einungis þriðji ársfjórðungurinn sem Hagstofan reiknar út vísitölu framleiðsluverðs og því er ekki hægt að bera tölurnar saman við fyrra ár. Vísitalan lækkaði um 1,9% á fyrsta ársfjórðungi en þá var krónan 3,9% sterkari að meðaltali heldur en á fjórða ársfjórðungi í fyrra. Greiningardeild Landsbankans segir ljóst af framansögðu að þróun krónunnar hafi mikil áhrif á vísitölu framleiðsluverðs og þá sérstaklega á verð sjávarafurða. Verð annarra iðnaðarvara eru minna háð gengi krónunnar þó áhrifin séu vissulega einhver.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×