Innlent

Lögreglumenn í lífshættu

Kona á fertugsaldri stofnaði lífi og limum tveggja lögregluþjóna í hættu þegar hún ók tvívegis á bíl þeirra á fullri ferð í Reykjavík í gærkvöldi og stakk svo af. Báðir lögreglumennirnir meiddust og lögreglubíllinn, sem var nýr, sterkbyggður Volvo, varð óökufær eftir ósköpin. Upphaflega hafði konan elt bíl í Kópavogi og bað ökumaður hans lögregluna um aðstoð. Þegar lögregla kom að, á bílastæði við háhýsin við Árskóga skammt frá Mjóddinni, og stöðvaði lögreglubílinn á stóru bílastæði, gaf konan allt í botn, ók í stóran hring og svo utan í farmhorn lögreglubílsins þannig að að vinstra framhjólið bognaði undir hann og hann dældaðist talsvert. Þá setti konan í afturábakgír og bakkaði talsverðan spöl, tók síðan „tillhlaup“ og ók á fullri ferð inn í hlið lögreglubílsins. Höggin voru svo mikil að líknarbelgir í lögreglubílnum blésu út. Þrátt fyrir það þurftu báðir lögreglumennirnir að fara á slysadeild en snéru aftur til vinnu. Þeir hlutu meðal annars hálshnykki. Þykir með ólíkindum að ný Toyota Corolla konunnar skuli hafa verið ökufær en hann fannst mannlaus í Breiðholti skömmu síðar. Konan var svo handtekinn laust eftir miðnætti, þegar hún ætlaði að vitja hans aftur, en lögreglumenn sátu fyrir henni í ómerktum lögreglubil. Hún gistir enn fangageymslur og er ekki vitað hvað henni gekk til og talið er að hún hafi ekki verið undir áhrifum áfengis eða lyfja.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×