Innlent

Embættistaka foseta Íslands

Trúin á þjóðina, traust á almenningi, er grundvöllur stjórnskipulags vors sagði Ólafur Ragnar Grímsson þegar hann sór í þriðja sinn embættiseið sem forseti Íslands nú síðdegis og vitnaði í orð forvera síns, Ásgeirs Ásgeirssonar. Í innsetningarræðu sinni lagði Ólafur Ragnar Grímsson áherslu á að forsetinn, ríkisstjórnin og Alþingi störfuðu í þágu þjóðarinnar og lytu vilja hennar í öllum sínum verkum. Það var þröngt á þingi, í orðsins fyllstu merkingu, þegar Ólafur Ragnar Grímsson, tók í þriðja sinn við embætti forseta Íslands. Þar var saman kominn mikill fjöldi prúðbúinna gesta, bæði innlendra og erlendra. Það vakti athygli að frú Dorrit Mousaieff klæddist glæsilegum skautbúningi, við athöfnina. Embættistakan hófst með því að Markús Sigurbjörnsson, forseti hæstaréttar lýsti forsetakjöri og útgáfu kjörbréfs og mælti fram drengskaparheit að stjórnarskránni, sem forseti undirritar. Eftir að Ólafur Ragnar undirritaði eiðstafinn, afhenti forseti hæstaréttar honum kjörbréfið með árnaðaróskum. Þvínæst gengu forsetinn og frú Dorrit út á svalir Alþingishússins, þar sem hann minntist fósturjarðarinnar, og var tekið hraustlega undir húrrahrópin fjögur, bæði innan dyra og utan. Að því loknu ávarpaði forsetinn þjóðina. "Góðir Íslendingar, þjóðin hefur nú í þriðja sinn falið mér að gegna embætti forseta Íslands, og bera ábyrgð og skyldur sem traustinu fylgja. Þakklæti til fólksins í landinu og virðing fyrir arfleið Íslendinga og væntingum almennings um farsæla framtíð eru mér efst í huga á þessari stundu." Síðar í ræðu sinni fjallaði forsetinn um framtíð Ísland, heimssýn þjóðarinnar og lýðræðið í framtíðinni. "Hvernig heim viljum við skapa, hvert er erindi Íslendinga? Slíkum spurningum svarar þjóðin sjálf. Kjarni lýðræðisins er að forseti, Alþingi og stjórnvöld öll lúti vilja þjóðarinnar og leiðsögn. Starfi í þágu markmiða sem hún hefur með samræðum og víðtækri þátttöku gert að sínu." Í lok máls síns talaði forsetinn um fegurð landsins og framtíð þess. "Forlögin hafa fært okkur einstakt land, víðáttu og fegurð, litadýrð og náttúruundur, öræfi og grösuga dali, straumþungar ár og iðandi fossa. Við skulum kappkosta vel að varðveita vel þetta draumaland sem við höfum fengið í arf svo að börn okkar og afkomendur geti um aldur og ævi þakkað þau forréttindi að vera Íslendingar."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×