Innlent

Getur leitt til þráteflis

Sigurður Líndal lagaprófessor segist ekki geta sagt til um það hvort breytingar á lögum um fjölmiðla geri það að verkum að lögin séu líklegri en áður til að standast stjórnarskrá. Hann segir að sér hefði þótt eðlilegra að fella lögin úr gildi og í kjölfar þess færi fram undirbúningur og umræða um nýja lagasetningu. Hann bendir einnig á að "einkennilegt þrátefli" geti orðið ef Alþingi kemst hjá þjóðaratkvæðagreiðslu um lög með því að gera minniháttar breytingar á þeim eftir að þeim hefur verið skotið til þjóðarinnar. Jónatan Þórmundsson lagaprófessor segir að nýr kafli í fjölmiðlamálinu taki við eftir ákvörðun ríkisstjórnarinnar í gær. Hann segir að það verðskuldi athugun hvort það standist stjórnarskrá að Alþingi afturkalli, eða felli úr gildi, lög sem vísað hefur verið til þjóðaratkvæðagreiðslu en fljótt á litið telur hann að þingið geti gert það. "Þingið getur fellt úr gildi þessi lög. Ég held að formlega séð fái það staðist. Hitt er svo annað mál hvernig það lítur út lýðræðislega þegar búið er að taka ákvörðun um að þjóðin fái að segja skoðun sína. Ég hugsa að þetta standist lögfræðilega en ég er í meiri vafa um þetta lýðræðislega," segir Jónatan.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×