Innlent

Skrípaleikur segir Skarphéðinn

Skrípaleikur, er það orð sem Skarphéðinn Berg Steinarsson, stjórnarformaður Norðurljósa, segir fyrst koma upp í hugann þegar breytingar á fjölmiðlalögunum og málsmeðferð ríkisstjórnarinnar séu skoðuð. Prósentubreytingar og frestun gildistöku laganna breyti engu fyrir Norðurljós, og ríkisstjórnin sé að hæðast bæði að forsetanum og þjóðinni. Jónatan Þórmundsson, lögfræðingur, hefur efasemdir um lýðræðisþáttinn, hvort hægt sé að svipta þjóðina réttinum á að segja álit sitt í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þingkosningar eftir nokkur ár séu ekki það sama og þjóðaratkvæðagreiðsla um ákveðið lagafrumvarp eða lög. Ólafur Hannibalsson, einn forvígismanna Þjóðfylkingarinnar svokölluðu, segir efnisbreytingar ríkisstjórnarinnar engu breyta. Honum sýnist að verið sé að afturkalla þjóðaratkvæðagreiðsluna þar sem menn óttuðust úrslit hennar. Í staðinn verði málið eitt þeirra sem kjósendur athugi við næstu þingkosningar með öðrum stjórnarskrárbreytingum, sem grunur leiki á að muni þrengja vald borgara í þjóðfélaginu. Ólafur telur fyllstu ástæður til að fólk sé á verði, snúi vörn í sókn og snúi sér að því að leggja drög að stjórnarskrá sem kemur að neðan, frá fólkinu, en ekki að ofan, frá kónginum eða valdhöfum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×