Innlent

Loftlaust á tónleikum

Fjórir gestir á tónleikum Metallicu voru fluttir á slysadeild eftir að þeir féllu í öngvit og tugir áttu erfitt með andardrátt, vegna loftleysis í Egilshöll í gærkvöld. Yfirlögregluþjónn í Reykjavík segir þó að allt hafi farið vel fram og gefur tónleikagestum bestu einkunn. Átján þúsund manns voru samankomnir á tónleikum bandarísku þungarokksveitarinnar Metallica í Egilshöll, sem er íslandsmet, því aldrei áður hafa jafn margir komið saman hér á landi undir einu þaki. Vel á þriðja hundrað manns starfaði við gæslu, en lögreglan vissi ekki við hverju mætti búast og voru um 40 lögreglumenn á staðnum. Geir Jón Þórisson, yfirlögregluþjónn í Reykjavík, sagði að ákveðinn kvíðbogi hafi verið með þeim en allt hafi gengið ljúfmannlega fyrir sig. Eftir upphitun í höllinni myndaðist mikill hiti innanhúss. Páll Þór Ármann, framkvæmdastjóri Egilshallar, segir að loftræstikerfið hafi í fyrstu ekki verið í gangi, að kröfu meðlima Metallica, sem létu dæla mistri inn í rýmið, til að skapa ákveðna stemningu, en kerfið geti annað allt að 20 þúsund manns. Talsverð bið var eftir því að sveitin kæmi á sviðið og á tímabili fóru þrengslin og loftleysið að segja verulega til sín, því ýmsir áttu orðið erfitt með andardrátt. Fjórir voru fluttir á slysadeild eftir að hafa fallið í öngvit og björgunarsveitarmenn hjálpuðu töluverðum fjölda við að koma sér út úr húsinu. Strax var brugðist við ástandinu og segir Páll Þór að um leið og loftræsting hafi verið sett í gang og hliðar hússins verið opnaðar, hafi komið góð hreyfing á loftið og fólki liðið betur. Vel gekk síðan að hleypa fólkinu út úr tónleikahöllinni. Forsvarsmenn Egilshallar, tónleikahaldarar og lögreglan munu nú fara yfir þessi mál í ljósi reynslunnar sem nú er fengin, en þeir telja ýmislegt hægt að læra af henni. Geir Jón telur vel hægt að halda svona stóra tónleika ef fólk heldur sig frá áfengi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×