Innlent

Undrast ekki fylgi Framsóknar

Steingrímur Hermannsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins og forsætisráðherra, undrast ekki slæma útkomu flokksins í skoðanakönnunum því hann sé á villigötum í fjölmiðlamálinu. Flokkurinn eigi að sjá til þess að fjölmiðlalögin verði felld úr gildi og að vinna við nýtt fjölmiðlafrumvarp eigi að hefjast að nýju í haust.  Framsóknarflokkurinn fékk afar slæma útkomu í skoðanakönnun Fréttablaðsins í gær, hlaut aðeins 7,5% fylgi, eða minnst allra flokka. Yrðu það úrslit kosninga fengi flokkurinn aðeins fjóra þingmenn en hann hefur nú tólf menn á þingi. Steingrímur Hermannsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins, var forsætisráðherra í ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks frá 1983 til 1987. Hann telur að ef svo fer sem horfir sé forsætisráðherrastóll Halldórs Ásgrímssonar dýru verði keyptur. Steingrímur sagði í samtali fréttamann í morgun að hinn almenni flokksmaður framsóknarmanna sé mjög uggandi yfir stöðu flokksins og stefnu í fjölmiðlafrumvarpinu. Steingrímur segir þetta slíka sorgarsögu að hann vilji sem minnst um málið segja. Hann segir samt að að sínu mati eigi Framsóknarflokkurinn að sjá til þess að fjölmiðlalögin verði felld úr gildi og að vinna við nýtt fjölmiðlafrumvarp hefjist að nýju í haust. „Það er hægt að vinna þetta mál með friði en aldrei ófriði,“ segir Steingrímur. Hann telur að flokkurinn getir híft upp fylgi sitt með því að taka ákveðna stefnu í málinu og fylgja henni. Hægt er að hlusta á viðtalið við Steingrím með því að smella á hlekkinn sem fylgir fréttinni. 



Fleiri fréttir

Sjá meira


×