Innlent

Margt gagnlegt í skýrslunni

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra segir að skýrsla Ríkisendurskoðunar um háskólastigið, þar sem stjórnvöld eru hvött til skýrari stefnumótunar, muni gagnast vel í stefnumótunarvinnu innan menntamálaráðuneytisins. "Það er margt mjög gott í þessari skýrslu og ég vil undirstrika það. Það er alls ekki þannig að ég sé ósátt við allt í skýrslu Ríkisendurskoðunar. Það sem ég er einfaldlega ekki sammála er að það vanti stefnu í málefnum háskólanna," segir Þorgerður Katrín. Hún segir að undanfarin ár hafi stefnan í málefnum háskólanna verið mjög skýr. "Hún hefur haft það markmið að auka samkeppni, auka valfrelsi og auka fjölbreytni í háskólamálum. Og við erum búin að ná þeim árangri að það er komin fín samkeppni, fjölbreytni og valfrelsi," segir hún. Hún segir að frá árinu 2000 hafi fjöldi háskólanema tvöfaldast og því sé líklegt að slíkri sprengingu hafi fylgt ákveðnir vaxtarverkir. "Ég hef fagnað því sem segir í skýrslunni að það eigi að leggja aukna áherslu á gæðaeftirlit. Ég held að það sé rétta skrefið sem við erum að taka að leggja aukna áherslu á gæðamálin í skólunum," segir Þorgerður Katrín.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×