Innlent

Ekki skólagjöld í grunnnám

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra er á þeirri skoðun að samfélagið eigi að mestu eða öllu leyti að standa straum af kostnaði nemenda við grunnnám í háskólum. Hún telur hins vegar að hið sama eigi ekki við um framhaldsnám, þ.e. mastersnám og doktorsnám, og því þurfi að skoða kosti þess að nemendur standi meiri straum af kostnaði við það. Þorgerður Katrín sér fleiri kosti en galla við slíkt fyrirkomulag. "Fyrir mína parta þá geld ég frekar varhug við því að setja skólagjöld á grunnnám. Aftur á móti sé ég fleiri kosti en galla á því að það verði hugsað um það í masters- og doktorsnámi," segir Þorgerður Katrín. Hún segir að mikil menntasókn á síðustu árum hafi gert það að verkum að grunnnám í háskólum sé orðið mun algengara en áður. "Ég held að það sé ekkert óeðlilegt að samfélagið standi undir því námi að mestu eða öllu leyti. En ég held að við verðum að taka málefni framhaldsnámsins til frekari athugunar. Þetta vonast ég til að gera á grundvelli faglegrar umræðu en ekki öfgafullrar og vonandi að við getum tekið hana með háskólasamfélaginu," segir Þorgerður Katrín. Að sögn Þorgerðar Katrínar hefur Samfylkingin lagt áherslu á að koma eigi upp skólagjöldum í háskólanámi og því leggur hún áherslu á öfgalausa og málefnalega umræðu um málið. "Ég held að við verðum að sjá hvað Háskólinn vill í þessum efnum en það sem ég hef fyrst og fremst viljað leggja áherslu á er að fá faglega umræðu um kosti og galla skólagjalda," segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×