Lífið

Mannkynssaga að hætti Hollywood

Það kannast flestir við söguna um piltinn Artúr sem einn manna gat dregið sverðið Excalibur úr steininum og varð fyrir vikið konungur yfir Englandi. Þessi goðsagnakenndi konungur var réttlátur maður og drengur góður og tók þess vegna upp á þeirri nýkundu að funda með riddurum sínum við hringborð, þar sem allir eru jafnir og enginn situr í öndvegi. Galdrakarlinn Merlin studdi hann með ráðum og dáð og ekki veitti af þar sem í mörg horn var að líta í stóru konungsríki og óvinir leyndust víða, ekki síst í hálfsystir hans Morgan, sem var býsna slóttug. Þá ríkti aldeilis ekki taumlaus hamingja í konungshöllinni Camelot þar sem drottninginn Guinevere og hægri hönd Artúrs, riddarinn hugprúði Lancelot, felldu hugi saman og skriðu upp í rúm þegar kóngsi sá ekki til. Hin sanna saga Risasumarmyndaframleiðandinn Jerry Bruckeheimer taldi sig heldur betur kominn í feitt þegar hann komst að því að handritshöfundurinn David Franzoni (The Gladiator) lét hann vita að hann gæti hrist fram handrit að mynd sem segði raunverulegu söguna um Artúr, sönnu söguna að baki goðsagnarinnar eins og þeir orða það í Hollywwod. Franzoni rakst fyrir mörgum árum á ritgerð um rómverskan herforingja, Lucious Artorius Castus að nafni, sem barðist fyrir heimsveldið fallandi á Bretlandseyjum. "Það er venjan að stórkostlegar goðsagnir eiga sér uppsprettu í merkilegum sögum," segir Franzoni, sem var ekki lengi að selja Bruckheimer hugmyndina en karlinn sá er manna flinkastur við að búa til fokdýrar stórmyndir sem mala honum gull og nægir í því sambandi að nefna Pirates of the Carribean frá því í fyrra. "Það sem ég var spenntastur fyrir í sambandi við þessa mynd er að hún kemur með nýja sýn á sögu sem við teljum okkur öll þekkja. Sannleikurinn er sá að Artúr var uppi miklu fyrr en maður sér í flestum kvikmyndaútgáfum sögunnar. David Franzoni nálgast söguna frá nýju sjónarhorni og færir okkur sögulega nákvæmari Arthúr," segir ofurframleiðaninn Bruckheimer. "Það er ákveðinn punktur í mannkynssögunni þar sem nafnið og stórkostlegur bardagi eiga sér stað. Nafnið var Lucious Artorius Castus og orrustan var við Badon Hill. Þessi bardagi breytti Bretlandi og gat af sér goðsögn sem hefur lifað með kynslóðum og tekið ýmsum breytingum," segir Franzoni. Bragðið af ofbeldinu og lyktin af dauðanum Bruckheimer ákvað að fá leikstjórann Antoine Fuqua til þess að koma sögu Franzonis á hvíta tjaldið en Fuqua sem er þekktastur fyrir The Training Day vakti fyrst athygli fyrir stílfærðar sjónvarpsauglýsingar sínar. "Ég held að Jerry hafi talið mig rétta manninn fyrir þessa mynd vegna þess að hún er harkaleg. Þú finnur bragðið og lyktina af ofbeldinu og dauðanum. Þú finnur kuldan og örvæntinguna. Það er dómsdagstónn í henni enda segir frá heimi sem var nánast vonlaus -- eina vonin býr í Artúri sjálfum," segir leikstjórinn. "Myndin er miklu raunsærri en fantasíurnar um Artúr. Við höfum aldrei séð Artúr konung svona áður. Hann var ekki bara goðsögn heldur raunverulegur maður. Maður sem fórnaði hagsmunum sínum til þess að verða leiðtogi sem hafði réttinn til þess að kalla sig konung." Í upphafi King Arthur er Rómverjinn Artorius að undirbúa heimför herliðs síns til Rómar enda heimsveldið á fallanda fæti og á undanhaldi gegn ágangi barbara á flestum vígstöðvum. Artorius og riddarar hans þurfa að ganga frá einum lausum enda fyrir brottför en komast þá í kynni við seiðkarlinn Merlin og hina hugdjörfu Guinevere sem tekst að fá Artorius til þess að fresta heimferðinni og aðstoða við varnir landsins gegn innrás Saxa. Rómversku riddarararnir eru mátulega hrifnir af því að staldra lengur við, enda flestir til í að hverfa til Rómar en eins og sönnum leiðtoga sæmir tekst Artoriusi að stappa stálinu í sína menn og snúa vörn í sókn. "Það er oft þannig að það þarf aðeins einn mann til að standa upp gegn hinu illa," segir Fuqua yfir sig hrifinn af sínum manni. Keira engin dama í hættu Bruckheimer og Fuqua vildu fá evrópska og ekkert endilega mjög þekkta leikara til þess að túlka aðalpersónurnar og því fékk Clive Owen tækifæri til þess að spreyta sig á Artúri. Owen fór á kostum í Croupier sem sýnd var á breskum bíódögum í Háskólabíói ekki alls fyrir löngu og þar sá Bruckheimer hann og heillaðist. Þegar kom að því að ráða í hlutverk Guinevere kom Keira Knightley ein til greina í huga framleiðandans: "Keira var fersk, ofboðslega falleg og lék frábærlega í Pirates of the Carribean," segir Bruckheimer. "Hún skilaði ákaflega góðu verki í myndinni sem gekk rosalega vel hjá okkur og ég vildi fá hana aftur." Keira er alvöru töffari sem heillaði Fuqua einnig upp úr skónum meðal annars með því að leika sjálf í flestum áhættuatriðum. "Hún er sko alls engin dama í hættu," segir Knightley um Guinevere. "Sú Guinevere sem við höfum séð hingað til er einhver sem flakkar frá einum karli til annars án þess að hafa mikið um það að segja. Okkar Guinevere er miklu harðari. Hún er vígakona sem stendur jafnfætis hvaða karlmanni sem er og hún hefur eitthvað til að berjast fyrir. Það er byggt á sögulegum staðreyndum -- konurnar börðust við hlið karlanna." Auk Owens og Keiru eru þeir Stellan Skarsgard og Ray Winstone þekktustu nöfnin í myndinni. Svíinn Skarsgard leikur illmennið í Artúr konungi en hann hefur komið víða við á ferlinum og hefur til að mynda starfað með landa sínum Ingmar Bergman og leikið í fjölda þekktra bandarískra mynda, þar á meðal Ronin, Good Will Hunting og Breaking the Waves og Dogville eftir Lars Von Trier. Breski töffarinn Ray Winstone leikur elsta og bardagareyndasta riddarann í liði Artúrs. Hann hefur leikið í fjölda breskra sjónvarpsmynda og var eftirminnilegur í kvikmynd Garys Oldman Nil By Mouth og ekki síður í breska krimmanum Sexy Beast. Það er því ekki hægt að segja annað en að Bruckheimer leiði fram einvala liði í áhlaupi sínu á miðasölurnar þetta sumarið og þó hér séu engir sjóræningjar og enginn Johnny Depp ætti Bruckheimar engu að síður að ná nokkrum skipsförmum af gulli með Artúri. Maðurinn kann varla neitt annað en að græða peninga og allt sem hann snertir á filmu virðist breytast í gull.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.