Innlent

Ólafur settur inn í embætti

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, var settur inn í embætti við hátíðlega athöfn í Alþingishúsinu laust eftir klukkan fjögur að lokinni helgistund í dómkirkjunni. Eiginkona forsetans, Dorrit Moussaieff, var íklædd íslenskum skautbúningi sem Jakobína Thorarensen saumaði árið 1938. Töluvert var af áhorfendum fyrir framan Alþingishúsið en einungis boðsgestir tóku þátt í sjálfri athöfninni inni í þinghúsinu. Eftir athöfnina gengu forsetahjónin fram á svalir þinghússins. Þar minntist forsetinn fósturjarðarinnar og viðstaddir bæði inni og úti tóku undir með ferföldu húrrahrópi. Lúðrasveit Reykjavíkur lék Land míns föður eftir Þórarinn Jónsson. Ólafur Ragnar Grímsson ávarpaði gesti í þingsal og þakkaði fólkinu í landinu fyrir stuðning við hann. Gjallarhorn vörpuðu ræðu hans til fólksins sem stóð utan við þinghúsið. Athöfninni lauk með því að dómkórinn söng þjóðsöng Íslendinga.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×