Innlent

Afstýri deilum við stjórnarkjör

Nýjar reglur hafa verið settar um inntöku nýrra félaga í Sjálfstæðisflokkinn eftir að hluti Heimdellinga kærði meðferð stjórnar á inntökubeiðnum nýrra félaga í aðdraganda aðalfundar og kosninga í stjórn félagsins í fyrra. Kjartan Gunnarsson, framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, segir að reglurnar gildi um öll félög innan flokksins. "Í reglunum segir meðal annars að ef stjórn í félagi ætli að setja tímatakmarkanir varðandi inntöku nýrra félaga þurfi að kynna þær með góðum fyrirvara. Fresturinn verður jafnframt að vera lengri en lágmarksfrestur til að auglýsa aðalfund," segir Kjartan. Atli Rafn Björgvinsson, formaður Heimdalls, segist reikna með því að félagið muni starfa eftir þessum nýju reglum. "Frestur til að skrá nýja félaga verði tilkynntur með góðum fyrirvara áður en aðalfundur verður boðaður," segir Atli. Hann segist vona að reglurnar komi í veg fyrir deilur vegna stjórnarkjörs líkt og þær sem upp komu í fyrra. Bolli Skúlason Thoroddsen, mótframbjóðandi Atla Rafns í síðustu kosningum segir að aðalatriðið sé að þeir sem vilja ganga í Sjálfstæðisflokkinn geti gert það með einföldum hætti. "Við lítum svo á að það hafi alltaf verið í gildi auðskiljanlegar og einfaldar reglur um inntöku nýrra meðlima en fyrra voru reglurnar þverbrotnar af stjórn Heimdalls," segir Bolli.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×