Innlent

Flestir skattar verði 15%

Verslunarráð Íslands vinnur að heildstæðum tillögum í skattamálum sem gefnar verða út í byrjun næsta árs. Vinnuheiti verkefnisins er "15 prósenta landið Ísland". Grunnhugmyndin sem gengið er út frá er að virðisaukaskattur og tekjuskattar einstaklinga og fyrirtækja verði fimmtán prósent. Að sögn Þórs Sigfússonar, framkvæmdastjóra Verslunarráðs Íslands, verður gert ráð fyrir skattaafslætti fyrir þá lægst launuðu. Ekki er gert ráð fyrir að lagt verði til að fjármagnstekjuskattur verði hækkaður. Þór segir að í umræðu síðustu vikna um fjármagnstekjuskatt hafi stundum gleymst að þrátt fyrir lága skattprósentu á fjármagn hér á landi þá búi flest önnur lönd við kerfi sem bjóði upp á undanþágur. Af þeim sökum sé ekki sjálfgefið að fyrirtæki og einstaklingar velji að greiða skatta á Íslandi þótt skattahlutfallið sé lágt hér. "Stóra málið í þessari umræðu teljum við vera að jaðarskatthlutföll á einstaklinga eru of há og reynslan af lækkun tekjuskatts fyrirtækja sýndi að með því að lækka skatthlutföll má auka skatttekjur ríkissjóðs og einfalda kerfið," segir Þór Sigfússon.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×