Innlent

Veiðiheimildir enn skertar

"Þegar ákveðið var að gefa sóknardagabátum færi á að skipta yfir í kvótakerfið var sérstaklega tekið fram að ekki yrði tekinn kvóti frá öðrum aðilum í sjávarútvegi," segir Arthur Bogason, formaður Landssambands smábátaeigenda. Sjávarútvegsráðuneytið hefur gefið út reglugerð um leyfilegar veiðar á næsta fiskveiðiári, sem hefst þann 1. september. Landssamband íslenskra útvegsmanna segir að um sjö prósenta skerðingu sé að ræða á kostnað aflamarksskipa. Arthur segir marga smábátaeigendur nú bíða átekta hvort staðið verði við þau loforð sem gefin voru. "Það voru skýr loforð frá æðstu stöðum að kvóti smábátaeigenda yrði viðbót og ekki ætti að skerða heimildir annarra. Við erum enn óhressir með missi dagakerfisins en burtséð frá því verður fróðlega að sjá hvort gefin loforð verða látin standa." Landssamband íslenskra útvegsmanna reiknar út að skerðing aflamarksskipanna nemi 11 þúsund tonnum vegna línuívilnunar og veiðiheimilda sem færðar hafa verið smábátaeigendum. Sú skerðing nemi alls sjö prósentum að teknu tilliti til minni heildarafla á komandi fiskveiðiári. Heildarþorskaflinn verður 205 þúsund tonn, sem er fjögur þúsund tonnum minna en á núverandi fiskveiðiári. Friðrik J. Arngrímsson, formaður Landssambands íslenskra útvegsmanna, segir lítið nýtt í reglugerð sjávarútvegsráðuneytisins. "Flestar stærðir sem þarna koma fram voru þekktar og fátt nýtt í þessu sem við hér höfðum ekki gert okkur grein fyrir." Hjá Fiskistofu verður brátt lokið við að reikna úthlutun á hvern flokk skipa. Samkvæmt reglugerðinni verður einnig rúmlega þrjú þúsund þorskígildislestum ráðstafað til þeirra byggðarlaga sem lent hafa í vanda vegna samdráttar eða skerðingar fiskveiðiheimilda undanfarin ár.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×