Innlent

Hætta veiðum fyrst um sinn

"Við höfum ákveðið að veiða ekki um sinn, en munum endurmeta stöðuna," segir Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ um síldveiði við Svalbarða. Fresturinn sem Norðmenn gáfu íslenskum skipum til að hætta veiðum við Svalbarða rann út á miðnætti síðustu nótt. Útgerðarmenn ákváðu á tíunda tímanum í gærkvöldi veiða ekki fyrstu um sinn eftir að bannið tæki gildi. "Það er líka bræla þarna úti og lítið hægt að veiða eins og stendur," segir Friðrik. Hann segir að íslenskir útgerðarmenn muni meta stöðuna ásamt íslenskum stjórnvöldum í dag. "Við höfum farið fram á að það verði skorið úr um þetta mál fyrir alþjóðadómstól." Friðrik segir að íslensk stjórnvöld hafi ekki hvatt útgerðarmenn til hætta veiðum. "Stjórnvöld hafa lýst yfir að við höfum fulla heimild til að veiða og stutt okkur í þessu máli." Friðrik telur mögulegt að eitthvað að síld sé utan bannsvæðisins og verið sé að kanna hvort hægt sé að veiða þar. Fimm íslensk skip voru á miðunum í gær og er gert ráð fyrir að þau verði þar áfram. "Varðskipin hafa verið að atast í okkur, elt okkur og komið daglega um borð til að sjá hvað við erum að fiska og stemma af bókhaldið," segir Arngrímur Brynjólfsson, skipstjóri á Vilhelm Þorsteinssyni frá Akureyri. Hann er reiðubúinn að leita annað ef þörf krefur. "Ef það er síld utan við bannsvæðið þá tökum við hana bara." Arngrímur segir veiði hafa verið góða og þetta sé í fyrsta sinn sem brælan hamli veiðum. "Við höfum veitt vel í sumar og landað tíu sinnum í skip sem fara með aflann í land og losnum þannig við vikusiglingu til Íslands."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×