Sport

Þórey Edda á góða möguleika

Þórey Edda Elísdóttir hefur keppni í úrslitum í stangarstökki kvenna á Ólympíuleikunum í Aþenu í dag. Þórey Edda á ágæta möguleika í úrslitakeppninni en aðeins sex stangarstökkskonur af fimmtán sem skipa efstu sætin á heimslistanum komust í úrslitakeppnina. Níu af bestu stangarstökkskonum heims gerðu ógilt eða felldu lágmarkshæð og komust ekki áfram. Þórey Edda stökk 4,40 metra í undanrásunum sem verður að teljast viðunandi árangur. Hún átti erfitt uppdráttar til að byrja með og felldi meðal annars byrjunarhæðina, 4,15 metra, einu sinni og 4,30 metra í tvígang. Hún flaug þó yfir 4,40 metra í fyrstu tilraun. Þórey Edda kenndi um hraðri braut og dýpri stokki en venjan er og er það líkleg ástæða þess að svo margar færar stangarstökkskonur féllu úr leik. Meðal þeirra sem féllu úr leik er bandaríska stangarstökkskonan Stacy Dragila en besta stökk hennar á árinu er 4,83 metrar. Heimsmethafinn Yelena Isinbayeva og Svetlana Feofanova, báðar frá Rússlandi, eru taldar vera í sérflokki þegar í úrslitin er komið og líklegt að þær muni skipa sér í efstu sætin. Isinbayeva á besta stökk ársins og núverandi heimsmet, 4,90 metra, og Feofanova á best 4,88. Þórey Edda sagði eftir undanrásirnar að mikil barátta yrði um þriðja sætið ekki síst í ljósi þess að Stacy Dragila væri dottin úr keppni. "Ég yrði mjög ánægð að stökkva 4,50 metra og held að það myndi duga mér í topp átta. Allt ofan á það yrði bónus," sagði Þórey Edda en Íslands- og Norðurlandamet hennar er 4,60 metrar sem hún setti fyrr á árinu og er það fimmta besta stökk ársins af þeim sem eru í úrslitum. Stangarstökkskeppnin hefst klukkan 17.55 í dag og verður í beinni útsendingu á RÚV.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×