Innlent

Varnarliðið verði áfram

Bandaríski öldungadeildarþingmaðurinn John McCain telur að Bandaríkin eigi að halda uppi trúverðugum vörnum hér á landi. Hann á sæti í hermáladeild þingsins og er mikill áhrifamaður í Bandaríkjunum. McCain segir alveg ljóst að nauðsynlegt sé að endurskipuleggja herafla Bandaríkjanna og flytja hann þá eitthvað til, en það verði að taka sérstakt tillit til aðstæðna einstakra vinaríkja. McCain kom hingað til lands aðallega til þess að fræðast um orkumál en á fundi með Halldóri Ásgrímssyni, starfandi forsætisráðherra, var óhjákvæmilega komið inn á öryggis og varnarmál. Þingmaðurinn var spurður um ákvörðun George Bush forseta að flytja tugþúsundir bandarískra hermanna frá herstöðvum í Evrópu og víðar og svaraði því til að endurskipulagning væri nauðsynleg því kalda stríðinu væri lokið. Spurningin væri hvernig þessi endurskipulagning yrði framkvæmd. McCain sagði einnig að spyrja mætti hvaða skilaboð það sendi til Asíu að kalla herinn frá Suður-Kóreu. Það yrði rætt í hermálanefndinni þegar þingið kæmi saman í byrjun september. Öldungadeildarþingmaðurinn sagði það vera sína skoðun að Bandaríkin ættu að halda uppi vörnum á Íslandi. Hvort það væru nákvæmlega fjórar orrustuþotur eða eitthvað annað gæti hann ekki tilgreint nánar. Varnarviðbúnaður ætti alla vega hiklaust að vera til staðar hér á landi. Það var nefnt við John McCain að bæði John Kerry og George Bush vildu fá hann sem varaforsetaefni í kosningunum í nóvember. Þingmaðurinn svaraði því til að hann yrði ekki góður varaforseti. Auk þess gegndi Dick Cheney því starfi með sóma. Á meðfylgjandi mynd sést John McCain með Hillary Clinton, öldungardeildarþingmanni og fyrrverandi forsetaafrú Bandaríkjanna. 



Fleiri fréttir

Sjá meira


×