Viðskipti innlent

Vextir Íbúðalánasjóðs lækka

Vextir á lánum Íbúðalánasjóðs lækka um mánaðarmótin og það stefnir í að þeir verði lægri en 4,4 prósenta vextirnir, sem viðskiptabankarnir bjóða. Óvíst er hvort bankarnir grípa til vaxtalækkana í kjölfarið. Íbúðabréf bera nú 4,5 prósenta vexti, en í lokuðu útboði til erlendra fjárfesta, sem lauk í gær seldust bréfin á meðalgenginu 3,77. Vaxtaálag er 0,6 prósent. Stjórn sjóðsins gæti því boðið viðskiptavinum sínum 4,4 prósenta vexti, eins og viðskiptabankarnir, eða jafnvel lækkað þá niður í 4,3 prósent. Í ljós mun koma hvort bankarnir fylgi þá á eftir. Ljóst er að Íslandsbanki mun ekki ríða á vaðið, en Bjarni Ármannsson, forstjóri Íslandsbanka, sagði í samtali við fréttastofu í dag að vaxtalækkun hjá Íbúðalánasjóði, ein og sér, leiddi ekki til vaxtalækkunar. Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri KB-banka, sem reið á vaðið með 4,4 prósenta lán til íbúðakaupa, segist munu bíða og sjá hvaða vexti Íbúðalánasjóður bjóði viðskiptavinum um mánaðarmót, áður en gripið yrði til aðgerða. Fyrirsjáanleg vaxtalækkun hjá Íbúðalánasjóði eru vissulega gleðifréttir fyrir þá sem huga á íbúðakaup. Langflestir, sem hafa tekið lán hjá sjóðnum síðustu ár, greiða þó yfir fimm prósenta vexti af íbúðalánum og það breytist ekki. Þau lán sem bankarnir bjóða upp á með 4,4 prósenta vöxtum gætu í augum þessa fólks virst gylliboð, þrátt fyrir viðvaranir hagspekinga um bullandi lánaafyllerí á þjóðarvísu.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×