Innlent

Ráðherra sigldi gámaskipi

"Hún lék á alls oddi og náði að sigla skipinu í höfn eftir að hafa lent í þrumuveðri á leiðinni," sagði Jón B. Stefánsson, skólameistari Vélskólans og Stýrimannaskólans, um Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur menntamálaráðherra eftir að hún tók véla- og siglingaherma skólans í notkun á föstudag. Þorgerður Katrín sigldi 200 metra löngu gámaskipi til hafnar í Halifax í herminum. Jón segir hermana breyta miklu fyrir skólann, meðal annars sé hægt að framkalla bilanir sem nemendur geti glímt við án þess að raunveruleg hætta steðji að. Þannig verði allir kennsluhættir nútímalegri. Nýju hermarnir gera skólunum kleift að skapa aðstæður sem líkjast raunverulegum aðstæðum hjá skipstjórnarmönnum og vélstjórum um borð í skipum. Beitt er fullkominni tölvutækni og raunverulegum stjórnbúnaði eins og fyrirfinnst í brú og vélarrúmi skipa. Að auki er raunverulegur vélaniður í stjórnherbergi vélarúms og stórir skjáir framkalla raunverulegt útsýni úr brúnni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×