Menning

Á leirdúfuveiðum

Skotskólinn býður upp á einkakennslu í haglabyssuskotfimi fyrir byrjendur sem lengra komna og öllum þeim sem áhuga hafa á að kynnast þessu áhugaverða sporti. Skólinn hefur verið starfandi síðan í byrjun júlí og á þeim tíma hafa þó nokkrir Íslendingar komið í tíma. Ellert Aðalsteinsson er margfaldur Íslandsmeistari í leirdúfuskotfimi, eigandi Skotskólans og einn helsti kennarinn þar. "Kennslan fer þannig fram að menn panta sér einkatíma sem er klukkutími í senn og þar greini ég hvar viðkomandi er staddur og leiðbeini honum í framhaldi af því. Þeir sem koma til mín eru helst fólk sem hefur skotið áður og er að leitast eftir því að bæta kunnáttu sína og hæfni í skotfimi, bæði veiðimenn og keppnisfólk. En ég tek auðvitað alla sem vilja í tíma, bæði byrjendur sem lengra komna." Skotið er á leirdúfur sem eru annaðhvort kyrrstæðar eða skotið úr turni. "Leirdúfuskotfimi er fyrir alla þá sem hafa gaman af íþróttaskotfimi sem og veiðum og kjörin fyrir þá sem vilja eiga skemmtilegan dag með vinum eða starfsfélögum við að gera eitthvað skemmtilegt og breyta út af vananum. Æfingar í leirdúfuskotfimi eru þó sérstaklega góðar fyrir veiðimenn sem skjóta aðeins fáa daga á ári eða einungis á haustin meðan á veiðitímabilinu stendur. Nauðsynlegt er fyrir þennan hóp að koma og skjóta nokkrar leirdúfur til að æfa sig fyrir komandi vertíð. Veiðimenn eiga ekki að æfa sig á bráðinni sjálfri heldur eiga þeir að koma áður en veiðitímabilið hefst og sýna náttúrunni þá virðingu að koma undirbúnir til leiks." Eru einhverjar konur í þessu? "Þetta er sport fyrir konur og karla og konur eru ekki síðri skyttur en karlmenn ef þær fá tækifæri til að kynnast sportinu. Ég fæ þó nokkrar konur til mín og skemmtilegustu tímarnir eru þegar hjón koma saman. Það er gaman að sjá hjón sem eiga sameiginlegt áhugamál og njóta þess að stunda það saman." Lærist skotfimi í einum hvelli?" Nei, fólk er mismunandi lengi að ná þessu en flestir sem fá góða leiðsögn geta lært að skjóta. Fólk hefur þetta misjafnlega mikið í sér, er mismunandi hrætt við vopn og annað slíkt. Skotfimi lærist ekki í einum hvelli en það geta allir lært að skjóta hvort sem það er sér til ánægju eða til að draga björg í bú handa sér og sínum." Allar nánari upplýsingar má finna á heimasíðu skólans, www.skotskolinn.is.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×