Innlent

Ummæli Halldórs brosleg

Jóhann Ársælsson þingmaður Samfylkingarinnar segir ummæli utanríkisráðherra um Evrópusambandið fyrst og fremst til þess fallin að róa Sjálfstæðismenn. Á meðan utanríkisráðherra líki sjávarútvegsstefnu ESB við nýlendustefnu kaupi Íslendingar þar veiðiheimildir sem aldrei fyrr. Halldór Ásgrímsson líkti í gær fiskveiðistefnu Evrópusambandsins við nútíma nýlendustefnu og útilokaði aðild á meðan hún væri við lýði, enda kostaði hún afsal yfir fiskimiðum landsins. Jóhann Ársælsson alþingismaður sem situr í sjávarútvegsnefnd Alþingis segir að ummæli Halldórs séu fyrst og fremst hlýjar kveðjur og þakklæti til samstarfsflokksins í ríkisstjórn. Hann segir ummæli utanríkisráðherra brosleg, enda sé erfitt að sjá hvað hafi breyst síðan hann hafi lýst yfir áhuga á mögulegri aðild og að breytingar á fiskveiðistefnu sambandsins væru mögulegar. Jóhann segir Halldór einungis vera að senda skilaboð til Sjálfstæðismanna um að þeir geti verið rólegir þó að hann sé sestur í stól forsætisráðherra. Hann telur athyglisvert að á sama tíma og Halldór segi ESB vera á nýlenduveldisbraut, kaupi Íslendingar veiðiheimildir á svæðinu sem aldrei fyrr. Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja og fleiri telji stefnuna greinilega ekki verri en svo. Eiríkur Bergmann Einarsson stjórnmálafræðingur segir að Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra hafi einungis áréttað fyrri stefnu í Evrópumálum. Að Íslendingar þurfi sérstaka beitingu á sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins til þess að hún sé okkur hagstæð. Hann sé einungis að fara fram á sama sveigjanleika af hálfu ESB og hafi verið sýndur suður- og austur-Evrópuþjóðum, sem og Svíum og Finnum, sem hafi fengið undanþágu frá landbúnaðarstefnu sambandsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×